Þeir gerast ekki mikið stærri gestirnir en sá sem fenginn var í Íþróttavikuna með Benna Bó í þetta skiptið. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sat þá í setti ásamt Herði Snævari Jónssyni, fréttastjóra íþrótta á Torgi.  

Guðni ræddi aðeins æskuna og sagðist hafa verið alinn upp mikið í kringum íþróttir. 

„Pabbi heitinn var íþróttakennari við MR og fræðslufulltrúi hjá ÍSÍ. Svo var hann þjálfari og aðstoðarþjálfari í frjálsum íþróttum, körfu- og handbolta. Þannig ég ólst upp við íþróttir yfir um og allt um kring. Ég naut þess mjög og geri enn.“ 

Sjálfur hætti Guðni þó í íþróttum á unglingsárunum. 

„Við erum þrír bræðurnir. Þeir náðu báðir lengra en ég í handboltanum. Ég hætti nánast á toppnum 15-16 ára og Patti, 11-12 ára, orðinn betri en ég.“ 

Patrekur Jóhannesson er bróðir Guðna. Hann átti auðvitað farsælan feril sem atvinnumaður og landsliðsmaður, sem og síðar meir í þjálfun. 

„Ég var fyrst og fremst stoltur fyrir hans hönd. Ég þykist nú eiga smá þátt í hans velgengni. Við lékum okkur tímunum saman á ganginum heima. Mamma og pabbi sáu fljótt að það þýddi lítið að hafa málverk þar uppi eða listmuni. Við vorum með flóknar reglur, það mátti aldrei skjóta í vegginn. Ég held að þetta hafi meðal annars orðið til þess að hann var ansi nákvæmur í sínum skotum.“ 

Umræðan í heild er hér að neðan.