Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta segir íslenska liðið ekki vera í neinni sóttvarnarkúlu í Ungverjalandi þar sem liðið mun keppa á Evrópumótinu í handbolta.

Sú staða skýtur skökku við því íslenska liðið var í svokallaðri sóttvarnarbúbblu hér heima á Íslandi í undirbúningi sínum fyrir mótið, þar sem að samskiptum við aðila fyrir utan leikmenn og þjálfarateymi landsliðsins var haldið í lágmarki.

Gestir hótelsins sem íslenska liðið gistir á, valsa um hótelið grímulausir innan um leikmenn landsliðsins.

Guðmundur var til viðtals í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. „Það er ekki búbbla á þessu hóteli. Það þýðir að við erum auðvitað að vissu leyti útsettir hérna. Það er fólk hérna sem eru bara venjulegir túristar. Þannig við erum að reyna að passa okkur og erum alltaf að tala um þetta og huga að sóttvörnum sjálfir. En þetta er ekki einfalt."

Fréttir bárust af því úr herbúðum franska og serbneska landsliðsins að staðan væri sú sama og íslenska liðið er að upplifa. Liðin deila morgunverðarsal og göngum með öðrum gestum hótelsins.

Guðmundur segir það koma á óvart hver staðan sé hjá liðinu í Ungverjalandi. Hann bjóst við því að liðið væri í verndaðra umhverfi sökum kórónuveirufaraldursins en smit hafa verið að greinast hjá þátttökuþjóðunum undanfarnar vikur.

,, Ég átti von á því. Ég verð að játa það. Ég átti von á því að þetta yrði svipað og í Egyptalandi. Þá vorum við í búblu og þeir tóku mjög fast á þessu Egyptar. Ég átta mig ekki alveg á ástæðunum. En þetta er svona," sagði Guðmundir í samtali við Morgunútvarpið.