Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, leiða fyrir lokahringinn á Íslandsmótinu í höggleik sem fer fram í Grafarholtinu um helgina.

Guðrún Brá er að gera atlögu að því að verja Íslandsmeistaratitilinn en Guðmundur Ágúst er í leit að fyrsta Íslandsmeistaratitlinum.

Hafnfirðingurinn Guðrún Brá er eini kylfingurinn undir pari í kvennaflokki og er með fjögurra högga forskot á heimakonuna Sögu Traustadóttir sem er á pari.

Nína Björk Geirsdóttir sem varð Íslandsmeistari árið 2007 er svo í þriðja sæti, átta höggum á eftir Guðrúnu.

Í karlaflokki tókst Guðmundi Ágústi að hrifsa til sín toppsætið í dag af Andra Þór Björnssyni sem leikur einnig fyrir hönd GR á heimavelli þeirra.

Guðmundur Ágúst kom í hús á þremur höggum undir pari annan daginn í röð og er alls á fimm höggum undir pari með tveggja högga forskot á Andra Þór.

Arnar Snær Hákonarson, Sigurður Arnar Garðarsson og Haraldur Franklín Magnús eru næstir á tveimur höggum undir pari og er líklegt að Haraldur muni veita Guðmundi mikla samkeppni á lokadeginum.