Ísland hefur í dag leik í milliriðli á heimsmeistaramótinu í handbolta karla en fyrsti mótherji íslenska liðsins í milliriðlinum verður Sviss sem komst óvænt inn í mótið eftir að Bandaríkjamenn þurftu frá að hverfa vegna kórónaveirusmita. Frakkland og Noregur verða einnig andstæðingar Íslands í milliriðlinum.

Skærasta stjarna svissneska liðsins er leikstjórnandinn Andy Schmid sem leikur með Alexander Peterssyni og Ými Erni Gíslasyni hjá þýska liðinu Rhein-Neckar Löwen.

Raunar þekkir Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska liðsins, vel til Schmid en það var Guðmundur Þórður sem fékk hann til liðs við Rhein-Neckar Löwen árið 2010 og þjálfaði hann þar í fjögur ár.

Vopnabúr Schmid er víðfermt en hann er bæði góður í að búa til færi fyrir samherja sína sem og að skora sjálfur með fjölbreyttum skotstíl sínum. Sviss leikur alla jafna með sjö leikmenn í sókn og er Schmid afar agaður og klókur þegar hann stýrir sóknaleik liðsins. Schmid, sem er 37 ára gamall, var valinn bestu leikmaður þýsku efstu deildarinnnar fjögur ár í röð, árin 2014 til 2017.

Sviss hafði betur gegn Austurríki í riðlakeppninni og nældi sér þar í stigin sem fleyttu liðinu í milliriðilinn. Liðið tapaði svo með sex mörkum gegn Noregi og spilaði svo hörkuleik við sterkt lið Frakka þar sem staðan var jöfn í hálfleik. Frakkland fór að lokum með eins marks sigur af hólmi í leik liðanna.