Guð­mundur Guð­munds­son, fyrrum lands­liðs­þjálfari ís­lenska lands­liðsins í hand­bolta og þjálfari danska úr­vals­deildar­fé­lagsins Fredericia er að upp­lifa afar góða tíma með fé­lags­liðinu eftir von­brigða­tíð með ís­lenska lands­liðið í kringum HM.

Það er best að láta verkin tala innan vallar í þessum kring­um­stæðum og það hefur Guð­mundur svo sannar­lega gert. Fredericia hefur nefni­legast ekki tapað leik frá því að keppni hófst á nýjan leik í öllum helstu deildum Evrópu eftir HM.

Alls hefur liðið leikið fjóra leiki og unnið þá alla, nú síðast gegn Aroni Pálmars­syni og liðs­fé­lögum hans í stjörnu­prýddu liði Ála­borgar.

Fredericia er sem stendur í efri hluta deildarinnar í 7. sæti dönsku úr­vals­deildarinnar með 24 stig eftir 22 leiki.

Hvað gerðist hjá landsliðinu?

Íslenska landsliðið féll úr leik í milliriðlum á HM í handbolta í upphafi árs og nokkrum vikum eftir mót, nánar tiltekið þann 21. febrúar síðastliðinn tilkynnti HSÍ um starfslok Guðmundar.

Degi eftir að tíðindin bárust almenningi birti Guðmundur færslu á samfélagsmiðlinum Facebook, færsla sem var þó ekki lengi í loftinu.

Á myndinni, sem Guðmundur birti við færslu sína á Facebook síðu sinni, er texti á þýsku en ef hann er þýddur þá hljómar hann svona. „Stærsta ástæða streitu er daglegt samband við hálfvita."

Var á myndinni látið eins og um tilvísun í ummæli Albert Einstein væri að ræða en svo reyndist ekki vera rétt.

Í framhaldinu fóru af stað sögusagnir þar sem handboltasérfræðingurinn Arnar Daði Arnarsson hélt því meðal annars fram að staðan hjá landsliðinu hafi verið ansi slæm. Því hafi ákvörðunin um starfslok Guðmundar verið tekin á þessum tímapunkti, skömmu fyrir leiki gegn Tékkum í undankeppni EM.

Enn fremur lét Arnar Daði meðal annars hafa það eftir sér í viðtali við Fréttablaðið að traust leikmanna landsliðsins til Guðmundar hafi dvínað mikið.

„Svo segir sagan og þetta er ekki bara einhver ein saga út í bæ. Þetta hefur verið viðloðandi landsliðið lengi og nú var hún orðin ansi hávær, bæði á meðan HM stóð og svo strax eftir að varð ljóst að Ísland kæmist ekki í 8-liða úrslit.

Manni finnst það alltaf vond staða fyrir þjálfara þegar klefinn er farinn að leka, landsliðsmenn farnir að heyra í vinum, vandamönnum og jafnvel fjölmiðlamönnum til að benda þeim á veikleika í fari Guðmundar. Þetta er ekki eitthvað sem gerðist núna í janúar.“