Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, telur að hægt sé að treysta á danska landsliðið í leik þess gegn Frökkum á morgun. Ísland þarf að vinna leik sinn gegn Svartfjallalandi á morgun og treysta á að Danir vinni Frakka til þess að komast í undanúrslit.

Guðmundur þekkir vel til danska landsliðsins en hann þjálfaði það á árunum 2014-2017 og gerði liðið meðal annars að ólympíumeisturum. Þrátt fyrir orð Nicolaj Jacobsen um að nokkrir leikmenn Danmerkur verði hvíldir á morgun þar sem að liðið hefur nú þegar tryggt sér sæti í undanúrslitum, telur Guðmundur að Danir geti hjálpað Íslendingum á morgun.

,,Danmörk er með frábært lið með mikla atvinnumenn innanborðs bæði í leikmannahópnum sem og þjálfarateyminu. Ég er handviss um að liðið mun gefa allt sitt í þetta," sagði Guðmundur í samtali við TV2 Sport.

Fyrir leik morgundagsins er Ísland í þriðja sæti milliriðilsins með 4 stig, tveimur stigum á eftir Frakklandi sem situr í öðru sæti riðilsins. Ísland er hins vegar með innbyrðis viðureignina á Frakka í kjölfarið á glæstum sigri liðsins um síðastliðna helgi og mun því enda ofar fari svo að liðin skilji jöfn.

Elvar Ásgeirsson, leikmaður Íslands, segir möguleikann enn góðan á því að Ísland komist í undanúrslit. ,,Við vorum með þetta í okkar höndum og þess vegna er þetta svona pirrandi staða. Nú verðum við að vona að Danmörk hjálpi okkur í þessu. Við eigum enn möguleika og verðum að vonast til þess að þetta endi ekki hér."