Kylfingurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson er í 16-19. sæti af 72 kylfingum fyrir lokahringinn í úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina.

Efstu 25 kylfingarnir í lok móts fá þáttttökurétt á Evrópumótaröðinni, næst sterkustu mótaröð heims.

Guðmundur fékk fjóra fugla í dag og fjórtán pör og kom í hús á fjórum höggum undir pari. Hann er samtals á sautján höggum undir pari eftir fimm hringi og deilir 16-19. sæti.

Hann er þremur höggum á eftir kylfingunum í 3-4. sæti en um leið tveimur höggum frá því að detta út úr hóp 25 efstu kylfinga og verður því allt undir á morgun.

Takist honum að lenda meðal efstu 25 kylfinganna verður Guðmundur annar íslenski karlkylfingurinn til að öðlast þáttttökurétt á þessari sterkustu mótaröð álfunnar á eftir Birgi Leifi Hafþórssyni.