Guðmundur Þ. Guðmundsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem farið var yfir frammistöðu íslenska liðsins til þessa á Evrópumótinu. Hann fór einnig yfir vonbrigðin sem fylgdu því að Ísland skyldi missa af sæti í undanúrslitum mótsins í kjölfar þess að Danir töpuðu gegn Frökkum í gærkvöldi.

Undir lok viðtalsins í Bítínu, þegar að þáttastjórnendurnir Gulli Helga og Heimir Karls ætluðu að kveðja Guðmund tók hann fram fyrir hendurnar á þeim og spurði hvort hann mætti fá eitt óskalag. ,,Ég væri til í eitt óskalag. Menn eiga að gaumgæfa textann í því, þetta er ekki bara lagið. Þetta er lagið Adventure of a lifetime með hljómsveitinni Coldplay. Þið skulið fara yfir textann í laginu."

Stigið upp við krefjandi aðstæður

Íþróttadeild Fréttablaðsins tók Guðmund á orðinu og rýndum í textann og settum í samhengi við íslenska karlalandsliðið sem hefur unnið hug og hjörtu landsmanna.

Í fyrsta erindi lagsins er talað um að allt sem þú vilt er aðeins draumi frá þér, sú lína er endurtekin í öðru erindi lagsins og því bætt við að við að undir þessu álagi og þessum þunga séum við demantar.

Hér er erindið þýtt yfir á íslensku: ,,Kveiktu á töfrunum, sagði hún við mig. Allt sem þú vilt er aðeins draumi frá þér. Undir þessu álagi og þessum þunga, erum við demantar."

Það má með sanni segja að íslenska landsliðið hafi komið á óvart á mótinu. Eftir að hafa unnið alla leiki sína í riðlakeppninni án teljandi vandræða, tóku við krefjandi tímar þar sem að Covid-19 setti strik í reikninginn. Ellefu leikmenn og einn starfsmaður hafa greinst með veiruna skæðu á mótinu og aðrir leikmenn hafa þurft að stíga upp og margir hverjir að spila sína fyrstu A-landsleiki.

Eftir tap gegn Danmörku vann Ísland glæstan átta marka sigur á Ólympíumeisturum Frakka, þrátt fyrir að marga lykilleikmenn hafi vantað í liðið.

Viðlagið, þýtt yfir á íslensku er eftirfarandi: ,,Nú finn ég hjartað slá, ég finn hjartað slá innra með mér. Ég finn hjartað slá. Þið látið mér líða eins og ég sé lifandi á ný."

Ísland valtaði yfir Frakkland á mótinu
GettyImages

Þriggja ára plan

Guðmundur var ráðinn landsliðsþjálfari á ný árið 2018. Hann hafði áður stýrt liðinu við góðan orðstír og undir hans stjórn hafði liðið meðal annars unnið til verðlauna á Ólympíuleikunum 2008 og Evrópumótinu 2010. Hann tók nú við efnilegu og spennandi liði og talaði um þriggja ára plan til þess að koma Íslandi aftur á meðal bestu handboltaþjóða heims í viðtali sem tekið var við hann í Sportveiðiblaðinu undir lok árs 2018.

Liðið hefur tekið miklum framförum frá því á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi sem fór fram fyrir ári síðan. Ísland endaði þar í 20. sæti eftir að hafa komist í milliriðil en tapað öllum sínum leikjum þar. ,

,Kveiktu á töfrunum, sagði hún við mig. Allt sem þú vilt er aðeins draumi frá þér. Undir þessu álagi og þessum þunga erum við demantar að taka á sig mynd," segir í lokaerindi lagsins.

Mörgum spurningum hefur verið svarað á þessu móti og fleiri leikmenn gera nú tilkall í landsliðið en áður. Í gegnum mótið hafa demantar orðið til, það mætti segja að Ómar Ingi Magnússon, íþróttamaður ársins 2021, hafi tekið að sér forystuhlutverk í landsliðinu og þá hafa aðrir leikmenn stigið upp í fjarveru lykilmanna.

Ómar Ingi Magnússon, hefur stigið upp á mótinu sem burðarás í liði Íslands
GettyImages

Tilfinningin meðal stuðningsmanna íslenska landsliðsins er að minnsta kosti sú að við séum með lið í höndunum sem geti á ný farið að berjast um verðlaun á næstu stórmótum. Framundan er mikilvægur leikur gegn Norðmönnum um 5.sæti Evrópumótsins á morgun. Sigurvegarinn í þeim leik tryggir sér beint sæti á Heimsmeistaramóti næsta árs.

Hægt er að hlusta á lagið hér: