Golfsamband Íslands tilkynnti í dag að Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Valdís Þóra Jónsdóttir hefðu orðið fyrir vali GSÍ sem kylfingar ársins.

Þetta er í 22. sinn sem bæði karl- og kvennkylfingur ársins eru valdir af GSÍ og er þetta í þriðja sinn sem Valdís hlýtur nafnbótina en fyrsta sinn sem Guðmundur Ágúst er valinn.

Guðmundur sem leikur fyrir hönd GR tryggði sér þátttökurétt á Áskorendamótaröð Evrópu með góðum árangri á Nordic Tour-mótaröðinni og lék vel í þeim mótum sem hann tók þátt í á Áskorendamótaröðinni í haust.

Þá varð Guðmundur undir lok sumars Íslandsmeistari í höggleik í fyrsta sinn á ferlinum á heimavelli sínum í Grafarholtinu.

Valdís Þóra lenti í 71. sæti á stigalista Evrópumótaraðarinnar í golfi eftir kaflaskipt tímabil. Skagamærin leiddi mót þegar mótið var hálfnað í Ástralíu fyrr á þessu ári en náði ekki að fylgja því eftir.

Á sama tíma var Valdís að glíma við meiðsli í baki en í samtali við Fréttablaðið á dögunum sagðist hún vera búin að læra hvernig mætti stýra verkjunum sem fylgdi meiðslunum.