Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur, varð í dag annar Íslendingurinn til að tryggja sér þátttökurétt á Evrópumótaröð karla í golfi, næst sterkustu mótaröð heims.

Guðmundur var að ljúka sjötta og síðasta hring sínum í Tarragona á Spáni og er í 18-22. sæti þegar síðustu menn eru að skila sér í hús.

Efstu 25 kylfingarnir í mótinu fá þáttttökurétt á Evrópumótaröðinni þar sem margir af bestu kylfingum heims eru meðal þátttakenda.

Með því fetar Guðmundur í fótspor Birgis Leifs Hafþórssonar sem komst fyrstur Íslendinga á Evrópumótaröðina árið 2006 og hélt keppnisréttinum árið 2007.

Guðmundur lék hringinn í dag á einu höggi undir pari vallarins og hringina sex á átján höggum undir pari. Alls fékk hann 24 fugla og sex skolla á sex hringjum.