Guðmundur Ágúst Kristjánsson er tveimur höggum frá efsta manni í sjöunda sæti eftir fyrsta hring á Norður-írska meistaramótinu í golfi.

Alls eru þrír íslenskir kylfingar skráðir til leiks sem leika allir fyrir hönd GR. Ásamt Guðmundi eru Andri Þór Björnsson og Haraldur Franklín Magnús skráðir til leiks.

Guðmundur var lengi af stað í gær og var á þremur höggum yfir pari eftir fyrri níu holurnar en frábær spilamennska á seinni níu lagfærði það. Alls komu fimm fuglar og fjögur pör á seinni níu holunum.

Hann er ásamt ellefu kylfingum í 7-19. sæti á mótinu sem er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu, næst sterkustu mótaröð Evrópu.

Andri og Haraldur eru jafnir á þremur höggum yfir pari eftir fyrsta hring í 74-90. sæti. Andri fékk þrjá skolla í gær og fimmtán pör á meðan Haraldur átti kaflaskiptan dag með sjö skolla og fjóra fugla.