GR-ingurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson deilir öðru sæti eftir fyrsta hring á KPMG mótinu sem er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu.

Guðmundur Ágúst tryggði sér fyrr í sumar þáttökurétt á Áskorendamótaröðinni sem er sú næst sterkasta í Evrópu.

Kylfingurinn lék óaðfinnanlegt golf í dag, fékk átta fugla og tapaði aldrei höggi þegar hann kom í hús á 63 höggum eða átta höggum undir pari vallarins.

Guðmundur deilir öðru sæti með Filip Mrzuk, tveimur höggum á eftir Sebastian Heisele sem leiðir eftir fyrsta hring.

Birgir Leifur Hafþórsson er eini íslenski kylfingurinn sem hefur unnið mót af þessari stærðargráðu þegar hann vann Corden Open mótið árið 2017.