Þýska handboltafélagið Melsungen greindi frá því á heimasíðu sinni í morgun að félagið hafi framlengt samning sinn við Guðmund Þórð Guðmundsson sem þjálfara karlaliðs félagsins.

Guðmundur Þórður mun samhliða því að þjálfa Melsungen halda áfram sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta. Samningur hans við Melsungen gildir út næsta keppnistímabil.

Þessi 59 ára gamli þjálfari samdi við Melsungen út yfirstandandi leiktíð í febrúar síðastliðnum en skömmu síðar var hlé gert á þýsku efstu deildinni vegna kórónaveirufaraldursins.

Melsungen er í sjöunda sæti deildarinnar eins og sakir standa en ekki hefur verið ákveðið hvort og þá hvenær deildarkeppnin mun hefjast á nýjan leik. Þá var liðið komið í undanúr­slit þýsku bik­ar­keppn­inn­ar og í fínni stöðu í riðlakeppni EHF-bik­ars­ins