Guðlaug Edda Hannesdóttir, þríþrautarkona er komin aftur heim eftir að hafa lent í heldur óskemmtilegri reynslu og verið flutt meðvitundarlaus á sjúkrahús með slæma matareitrun. Í samtali við RÚV segir Guðlaug frá því hvernig einn kvöldverður á veitingahúsi í Barcelona varð að svæsinni matareitrun.

„Við förum út að borða bara eitt kvöld. Aðeins að brjóta upp því þetta verður einhæft alla daga á hóteli. Tveimur dögum seinna er ég komin á spítala,“ segir Guðlaug Edda í samtali við RÚV en hún var þá stödd í Barcelona í æfingabúðum fyrir Meistaramót Evrópu en hún mun, sökum atburða síðustu daga, ekki geta tekið þátt á mótinu.

Guðlaug segir frá því hvernig hún hafi daginn eftir fundið að ekki væri allt með felldu. „Mér byrjar að líða skringilega á æfingum og tala um það en ég hélt að þetta væri bara hitinn. Svo veikist ég meira og hitinn hækkar mikið."

Hún hafi setið á klósettinu alla nóttina og fór að gruna að hún gæti hafa fengið matareitrun. Sundkappinn Anton Sveinn McKee, kærasti Guðlaugar, var einnig með henni úti og honum var ekki farið að lítast á blikuna og var ákveðið að fara með Guðlaugu á spítala. ,,Á leiðinni upp á spítala líður yfir mig í hótellobbýinu og það þarf að hringja á sjúkrabíl."

Hún eyddi þremur dögum á spítala, fór í rannsóknir og í ljós kom að hún væri mjög bólgin í kringum magasvæðið. Hún er nú að jafna sig og er komin heim af spítalanum. Við tekur frekari endurheim og einblínir Guðlaug nú á að ná fyrri styrk. Hún ákvað að draga sig úr keppni fyrir Meistaramót Evrópu. „Það er of mikil áhætta fyrir mig að keppa núna.“