Guðjón Valur hefur lengi verið með samninga við stóra íþróttavöruframleiðendur, fyrst Adidas og nú Mizuno. Yfir langan feril hefur því gríðarlegt magn íþróttafatnaðar safnast saman, bæði frá stuðningsaðilum hans sem og þeim félagsliðum sem hann hefur spilað fyrir.

Guðjón Valur flytur í sumar frá Þýskalandi til Parísar og því fannst honum gráupplagt að gefa þau föt sem hann hefur ekki not fyrir til góðs málefnis. Fyrir valinu varð Fjölskylduhjálp Íslands því honum var umhugað að fatnaðurinn færi til ungs fólks sem ekki gæti sjálft keypt dýran fatnað.

„Ég get með besta vilja aldrei notað öll þessi föt og aðrir hafa mun meiri not fyrir þetta en ég,“ sagði Guðjón Valur.

„Satt best að segja hafði ég ekki gert mér grein fyrir magninu fyrr en ég fór að taka til fyrir flutningana til Parísar annars hefði ég sennilega verið löngu búinn að gefa þetta til góðs málefnis,“ sagði Guðjón Valur.

„Léttir undir með mörgum“

Ásgerður Jóna Flosadóttir veitti gjöfinni viðtöku fyrir hönd Fjölskylduhjálparinnar. Alls eru þetta 10 stórir flutningakassar, yfir 200 kíló af fötum og skóm, flestu ónotuðu.

„Okkur finnst þetta rausnarleg gjöf frá landsliðsfyrirliðanum,“ segir Ásgerður Jóna.

„Við vitum að það er ekki ódýrt að stunda íþróttir, þrátt fyrir opinberan stuðning. Þessi gjöf Guðjóns Vals mun létta undir með mörgum fjölskyldum, það er alveg klárt mál. Við erum honum gríðarlega þakklát.“

Fjölskylduhjálp Íslands hefur frá árinu 2003 úthlutað fatnaði og síðar mat til þeirra sem erfitt eiga í samfélaginu. Fatagjöf Guðjóns Vals verður úthlutað til skjólstæðinga félagsins eins fljótt og auðið er.