Guðjón Valur Sigurðsson tilkynnti í dag að hann hefði ákveðið að leggja skóna á hilluna, 40 ára gamall eftir 24 ára feril.
Guðjón tilkynnti þessar fréttir á Instagram-síðu sinni og þakkaði öllum þeim sem hafa staðið með honum í gegnum tíðina.
Seltirningurinn lék með franska félaginu PSG á nýafstöðnu tímabili en hann hefur áður leikið með Rhein-Neckar Löwen, Barcelona Lassa, Kiel, Köbenhavn, Gummersbach og Essen.
Hann varð meistari í Þýskalandi, Danmörku, Spáni og Frakklandi ásamt því að vinna Meistaradeild Evrópu með Barcelona og Evrópukeppni félagsliða með Essen.
Hornamaðurinn lék fyrsta leik sinn á Íslandi árið 1995 og fór í fyrsta sinn með landsliðinu á stórmót árið 1999. Hann fór á 22 stórmót með íslenska landsliðinu.
Alls lék Guðjón Valur 364 leiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim 1875 mörk. Hann er markahæsti leikmaður Íslands frá upphafi.