Spretthlauparinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir kom fyrst í mark í hundrað metra hlaupi á Smáþjóðaleikunum, sextán sekúndubrotum frá Íslandsmetinu í greininni.

Hin 17 ára gamla Guðbjörg kom fyrst í mark á 11,79 sekúndu, sextán sekúndubrotum frá Íslandsmeti Sunnu Gestsdóttur sem hún setti fyrir fimmtán árum.

Tiana Ósk Whitworth sem hleypur einnig fyrir hönd ÍR nældi í silfurverðlaunin, níu sekúndubrotum á eftir Guðbjörgu.

Alls er Ísland því komið með fimm gullverðlaun í Svartfjallalandi, þar af fjögur þeirra í sundi þar sem Eygló Ósk Gústafsdóttir og Anton Sveinn Mckee hafa unnið tvenn gullverðlaun hvor.