Spretthlauparinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir kom í mark á 7,47 í undanrásunum í 60 metra hlaupi kvenna á HM í frjálsum innanhúss í morgun.

Það dugaði ekki til að koma Guðbjörgu áfram í undanúrslitin en hún endaði í sjöunda sæti í sínu hlaupi og í 29. sæti af 47 sem tóku þátt.

Íslandsmet Guðbjargar er 7,43 í greininni sem hefði skilað 27. sæti í dag en Guðbjörg hefði þurft að koma í mark á 7,38 eða betri tíma til að komast áfram.

Mikiah Brisco frá Bandaríkjunum var með besta tíma undanrásanna þegar hún kom í mark á 7,03, fjórum sekúndubrotum á undan næsta keppanda.