Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sett í kvöld nýtt Íslandsmet í 200 metra hlaupi, sitt annað Íslandsmet á árinu. Hún setti metið í hlaupi á Ólympíuleikum ungmenna sem fer fram um þessar mundir í Argentínu.

Guðbjörg hljóp á 23,55 sekúndum og dugði það fyrir fyrsta sætinu í fyrri umferð. Fyrra Íslandsmetið í 200 metra hlaupi átti Guðbjörg sjálf, og setti það þegar hún sló 21 árs gamalt met Guðrúnar Arnardóttur í júní á þessu ári. Þá hljóp hún á 23,61 sekúndu.

Samanlagður árangur í tveimur umferðum gildir til sigurs á mótinu. Því er ljóst að Guðbjörg hefur stimplað sig rækilega inn í keppnina og verður spennandi að fylgjast með henni í seinni umferðinni.

Tveir aðrir keppendur keppa í frjálsum íþróttum á mótinu. Það eru þau Valdimar Hjalti Erlendsson sem keppir í kringlukasti og Elísabet Rut Rúnarsdóttir sem keppir í sleggjukasti.