Agi Agenzia Italia, sem er fréttastofa á Ítalíu og ekki þekkt fyrir að fara fram með neinar falsfréttir, segir að Pep Guardiola muni taka við Juventus og verði tilkynntur sem stjóri þeirra fjórða júní.

Agi Agenzia Italia hefur merkileg smáatriði á hreinu og myndi trúlega ekki fara fram með fréttina nema hafa góðar heimildir fyrir henni.

Guardiola er sagður fá 24 milljónir evra á ári sem gera um 3,3 milljarða íslenskra króna. Hann mun skrifa undir fjögurra ára samning þann fjórða júní en tilkynntur 14. júní.

Þá bendir fréttastofan á að allir túrar og skoðunarferðir um Allianz völlinn og Juventus safnið 14. júní hafi verið flautað af af dularfullum ástæðum.

Stutt er síðan Massimiliano Allegri var látinn fara eftir fimm ára starf hjá Juventus.

Guardiola sjálfur hefur sagt áður að hann sé ekki að fara en hann var spurður um orðróminn í aðdraganda bikarúrslitaleiksins gegn Watford. „Ég veit ekki hversu oft ég á að segja þetta. Ég er ekki að fara til Juventus,“ sagði Guardola.