Spænski knattspyrnustjórinn Pep Guardiola hefur lagt fram einnar milljónar evra fjárframlag sem rennur í baráttuna gegn útbreiðslu COVID-19 veirunnar í Spáni.

Guardiola sem stýrir Manchester City er þessa dagana staddur á heimili sínu í Barcelona en hlé er á þeim keppnum sem félagið tekur þátt í eins og sakir standa.

Hann hefur undanfarna daga leitað leiða til þess að láta gott að sér leiða í baráttunni gegn veirunni sem herjar hart á spænskri grundu.

Fjárhæðin hefur verið eyrnamerkt teymi hjá háskólasjúkrahúsinu í Barcelona sem rannsakar veiruna og freistar þess að finna bæði bólu- og mótefni gegn henni. Einnig verða keyptir hlutir sem nýtast við skimun og meðferð við veirunni. Þá fer hluti fjárhæðarinnar í Angel Soler Daniel Foundation.

Spánn hefur ásamt Ítalíu farið einna verst út af Evrópuþjóðunum í heimsfaraldrinum. Opinberar tölur sögðu i gær að um það bil 40.000 hafi sýkst af veirunni í landinu og 2.696 látið látið vegna hennar.

Lionel Messi, Cristiano Ronaldo og Robert Lewandowski eru svo dæmi um stór nöfn í knattspyrnuheiminum sem hafa einnig lagt fram peningaupphæð til aðstoðar við þá aðila sem berjast gegn veirunni.