Spænski knattspyrnustjórinn Pep Guardiola hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við enska knattspyrnufélagið Manchester City en hann er þar af leiðandi samningsbundinn félaginu til sumarsins 2023.

Þessi 49 ára gamli knattspyrnustjóri hefur stýrt Manchester til sigurs í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í tvígang, einu sinni orðið enskur bikarmeistari og þrisvar sinnum unnið enska deildarbikarinn síðan hann tók við stjórnartaumunum hjá liðinu árið 2016.

Kevin De Bruyne, sóknartengiliður Manchester City, sagði svo eftir leik Belgíu og Danmerkur í gær að viðræður hans um nýjan samning við félagið væru í góðum farvegi en rætt hefur verið og ritað um framtíð hans hjá félaginu í ljósi óvissunnar um það hvort Guardiola verði áfram í brúnni hjá liðinu.

Rætt hefur verið um mögulega endurkomu Guardiola til Barcelona næsta sumar en nú virðist vera ljóst að ekkert verðir úr því.

Á þeim tæpu fimm árum sem Guardiola hefur verið við stjórnvölinn hjá Manchester City hefur liðið haft betur í 181 af þeim 245 leikjum sem hann hefur stýrt sem þýðir að hann er með tæplega 74% sigurhlutfall.