Dómstóll GSÍ staðfesti á dögunum árs bann yfir Sturlu Höskuldssyni, kylfingi frá Akureyri, fyrir að hafa svindlað við skráningu forgjafar í aðdraganda Íslandsmótsins í höggleik. Um leið var forgjöf kylfingsins felld niður en málið var tekið upp af dómstól GSÍ eftir kæru yfir ákvörðun aga- og forgjafarnefndar Golfklúbbs Akureyrar.

Í dómnum sem nálgast má á vef GSÍ kemur fram að umræddur kylfingur hafi leikið þrjá hringi undir lok júlí þar sem skráður ritari hafi ekki verið meðspilandi þann daginn. Þess í stað hafi foreldrar kylfingsins staðfest skorkortið. Sturla gekkst við því að hafa sent á foreldra sína og vissi að hann hefði gert mistök en sagði að hringirnir þrír væru allir rétt skráðir. Meðal hringja sem vöktu grunsemdir var besti hringur sumarsins þegar kylfingurinn lék á pari vallarins. Sturla viðurkenndi að hafa hætt leik eftir tvær holur og sagðist hafa klárað hringinn síðar um daginn einsamall.

Að mati dómstóls GSÍ var ábyrgðin hjá kylfingnum sem hann gengist við og kæmi það ekki til refsilækkunar að hann hefði unnið fyrir GSÍ og PGA-samtökin á Íslandi. Hér væri um ítrekuð alvarleg brot á reglum um forgjöf að ræða og staðfesti dómstóllinn tólf mánaða keppnisbann og niðurfellingu forgjafar.