Framkvæmdarstjóri Golfsambandsins, Brynjar Eldon Geirsson, sagðist ekkert kannast við óánægju­raddir íslenskra kylfinga þegar kæmi að nýja forgjafarkerfinu og mótahaldi á Íslandi. Umræða skapaðist um málið í Facebook-hópnum Kylfingar á Íslandi þar sem kvartað var undir nýju forgjafarkerfi sem tekið var upp í vor þar sem margir lýstu yfir óánægju sinni.

Einhver galli gerði það að verkum að mót sem væru opin hinum almenna kylfingi væru yfirleitt að sigrast á slíkum punktafjölda að það hlyti að vera einhver galli í kerfinu. Fyrr á þessu ári innleiddi Golfsamband Íslands forgjafarkerfið World Handicap System (WHS) þegar sex forgjafakerfi sem voru í notkun á heimsvísu voru sameinuð í eitt.

Með því var forgjöf reiknuð út frá átta lægstu skorum af síðustu 20 forgjafahringjum en forgjöf er gefin út til að meta styrkleika kylfinga og veita öllum jafnan grundvöll til að leika, hvort sem um ræðir nýliða eða þrautreynda kylfinga.

Kylfingur heldur forgjöf og spilar á pari eða eigin getu með 36 punkta en í úrtaki sem Fréttablaðið tók saman í gær mátti sjá mót sem unnust á 49 höggum og mót þar sem 42 punktar dugðu ekki nema í tíunda sætið.

„Þetta hefur ekki ratað inn á okkar borð og ég kannast því ekki við þessa umræðu. Okkar upplifun er í raun frekar að það sé almenn ánægja með nýja kerfið, bæði hér á landi og hjá nágrannaþjóðum okkar,“ sagði Brynjar þegar Fréttablaðið spurðist fyrir um hvort að þetta erindi hefði ratað inn á borð Golfsambandsins.

„Þetta gæti kannski tengst einhverjum vaxtarverkjum við nýja kerfið sem er mun skilvirkara að breyta forgjöfinni. Ég held að það sé mun líklegra frekar en að kylfingar séu að reyna að braska eitthvað með forgjöfina sína. Í nýja kerfinu liggur einnig meiri ábyrgð á forgjafanefndum klúbbanna, að einstaklingar á þeirra vegum séu með forgjöf sem endurspeglar getuna,“ sagði Brynjar og hélt áfram:

„Markmiðið með nýja kerfinu var að setja á sameiginlegt kerfi á heimsvísu til að einfalda forgjafareglurnar.“