Grótta náði merkum áfanga í sögu knattspyrnudeildar sinnar þegar kvennalið félagsins tryggði sér sæti í 1. deild á næsta tímabili með 3-0 sigri á móti Álftanesi fyrr í dag.

Seltirningar fylgja þar af leiðandi Völsungi sem hafði fyrir þó nokkru síðan tryggt sér sæti þar. Völsungur vann Leikni í lokaleik sínum með þremur mörkum gegn engu í dag þar sem Krista Eik Harðardóttir, Elfa Mjöll Jónsdóttir og Dagbjört Ingvarsdóttir skoruðu mörkin.

Völsungur vann 2. deildina með 34 stigum og Grótta kom þar á eftir með 23 stig. Sindri og Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir sitja hins vegar eftir með sárt ennið.

Það voru Taciana og Tinna Bjarkar sem skoraði tvívegis sem skoruðu mörk Gróttuliðsins í sigrinum dag og tryggðu stelpunum þar með 2. sætið í deildinni.