Hornamaðurinn Andri Þór Helgason skrifaði í dag undir tveggja ára samning við handboltadeild Gróttu. Andri Þór sem er 26 ára gamall kemur til Gróttu frá Stjörnunni þar sem hann lék á síðastliðinni leiktíð.

Þar áður lék Andri með Fram í þrjú tímabil og var þar fyrirliði liðsins. Andri fór með Fram-liðinu alla leið í undanúrslit Íslandsmótsins og í bikarúrslit.

Auk þess að spila með meistaraflokki félagsins mun Andri taka að sér þjálfun 3. flokks karla á komandi keppnistímabili.

Grótta sem komst upp í efstu deild á síðasta tímabili hefur auk Andra Þórs fengið til liðs við sig Birgi Stein Jónsson frá Stjörnunni, Berg Elí Rúnarsson frá Fjölni, Ólaf Brim Stefánsson frá Val, Lúðvík Thorberg Arnkelsson frá Fram og Stefán Huldar Stefánsson frá Haukum. Þá er Hannes Grimm kominn aftur í herbúðir eftir að hafa verið í láni hjá Stjörnunni.