Seltirningar réðust á ansi háa garða í frumraun sinni og næsta leik þar á eftir í deildinni í sumar. Fyrsti leikur liðsins var gegn lærisveinum fyrrum leiðtoga liðsins, Óskari Hrafni Þorvaldssyni og Halldóri Árnasyni hjá Blikum.

Þar lenti Grótta á vegg og því næst mættu Valsmenn sem fyrirliðar og forráðamenn deildarinnar spáðu Íslandsmeistaratitlinum á Vivaldi-völlinn. Þar reyndist Valur ofjarl Gróttuliðsins.

Eftir hörkuleik við Fylki í þriðju umferð beið Grótta lægri hlut og sparkspekingar voru farnir að spá því að Gróttuliðið myndi ekki ná að brjóta ísinn við markaskorun í efstu deild fyrir verslunarmannahelgi og stigasöfnun myndi ekki ná tug þegar upp yrði staðið í eldskírninni í deild þeirra bestu.

Ágúst Þór Gylfason sem fékk það verðuga verkefni að feta í fótspor Óskars Hrafns og Halldórs síðastliðið haust og búa til samkeppnishæft í efstu deild án þess að greiða leikmönnum fastar launagreiðslur var hins vegar keikur og engan bilbug var á honum að finna.

Eftir fylgdu jafntefli við HK þar sem Grótta lék einum leikmanni færri frá því undir lok fyrri hálfleiks. Á miðvikudagskvöldið var svo komið að enn einni stóru stundinni í sögu Gróttufélagsins þegar fyrsti sigurinn kom í efstu deild í nýliðaslagnum gegn Fjölni.

Þar skoraði Grótta þrjú mörk og hefur þar af leiðandi skorað sjö mörk í deildinni í sumar og eru tæplega hálfnaðir við að koma stigafjöldanum upp í tuginn. Falldraugurinn mun líklega svífa yfir vötnum á Nesinu fram á haustið en liðið hefur sýnt það að það er ekki boðflenna í hæsta lagi íslenskrar knattspyrnu.

„Mér finnst stundum gleymast að leikmannahópurinn er skipaður góðum leikmönnum," segir Kristófer.

Var nálægt því að leggja skóna á hilluna fyrir fjórum árum síðan

Kristófer Orri Pétursson er uppalinn hjá Gróttu og hefur gengið í gegnum tröppugang síðustu ára með Gróttuliðinu. Hann hefur leikið alla fimm deildarleiki Gróttu í sumar og lagt upp tvö af þeim sjö mörkum sem liðið hefur skorað. Kristófer Orri var nálægt því að hætta í fótbolta þegar hann var 19 ára gamall eftir að þrálát meiðsli höfðu valdið því að áhuginn á íþróttinni var farinn að minnka.

„Ég var búinn að vera að glíma við meiðsli aftan í læri í eitt og hálft ár og fannst ég ekki fá þann möguleika sem ég ætti skilið með meistaraflokknum. Ég var að spá í að hætta þegar ég hitti Bjarka Má [Ólafsson] sem var þá að þjálfa 2. flokkinn. Eftir þann fund fann ég neistann aftur og hann spilaði mér sem framherja það sumarið,“ segir Kristófer Orri í samtali við Fréttablaðið.

„Þórhallur Dan [Jóhannesson] og Sigurður [Brynjólfsson] sem voru þá að þjálfa meistaraflokkinn vissu ekkert hver ég var en gáfu mér svo sjénsinn um veturinn og ég spilaði mína fyrstu deildarleiki 19 ára sumarið 2017. Á þeim tíma átti ég ekki von á því að ég myndi spila í efstu deild með Gróttu,“ segir sóknartengiliðurinn.

„Hlutirnir hafa hins vegar þróast þannig að við erum með gott lið þessa stundina sem á klárlega heima í efstu deild. Okkur finnst við vera með lið sem getur alveg haldið sér uppi og við vitum alveg hvað við getum. Umræðan var svolítið þannig að við yrðum fallbyssufóður eftir leikina við Blika og Val. Það hefur hins vegar sýnt sig í leikjunum þar á eftir að við eigum í fullu tré við liðin í deildinni,“ segir hann.

Gleymist stundum í umræðunni að við erum góðir í fótbolta

„Mér finnst stundum gleymast að leikmannahópurinn er skipaður góðum leikmönnum sem hafa fína reynslu af meistaraflokksfótbolta. Vissulega var skrekkur í okkur í leiknum við Breiðablik og ég viðurkenni það alveg að við fengum smá sviðsskrekk að spila fyrir framan fullan völl gegn frábæru liði,“ segir Kristófer.

„Það er mikill léttir að hafa náð að landa fyrsta sigrinum en við förum í alla leiki í þessari deild með það að markmiði að ná í stig og fyrir leikinn í gær fannst mér við sigurstranglegri aðilinn. Þannig líður okkur. Það féll ekkert með okkur í leiknum við Fylki og okkur fannst við eiga meira skilið á móti HK.

Það var stór stund að ná í fyrstu þrjú stigin í efstu deild fyrir framan bestu stuðningsmenn landsins. Við erum með þéttan leikmannahóp og stemningin er frábær í hópnum. Svo eru margir stuðningsmenn liðsins bestu vinir mínir.

Við fórum saman leikmennirnir og stuðningsmannahópurinn á Rauða Ljónið eftir leikinn og horfðum á tilþrif kvöldsins saman. Svo er bara áfram gakk og stutt í næsta leik og undirbúningur fyrir þann leik er hafinn,“ segir hann um framhaldið en Grótta fær Skagamenn í heimsókn á sunnudaginn kemur.