Nokkrir stuðningsmenn Hammarby, sem staddir eru á Íslandi, gerðu sér ferð á Hlíðarenda í gærkvöldi til að fylgjast með leik Vals og FH. Þrír leikmenn fyrrnefnda félagsins léku áður með Hammarby.

Þeir Birkir Már Sævarsson, Aron Jóhannsson og Arnór Smárason hafa allir leikið með Hammarby á ferlinum. Sá fyrstnefndi var gestur í hlaðvarpsþættinum Vængjum þöndum í gær. 

„Þau sögðust bara vera að horfa á leik. Þau ákváðu að taka fánann með sér og koma, vitandi að það væru þrír Hammarby leikmenn hérna,“ sagði Birkir um stuðningsmennina.

Svíarnir voru í Hammarby-treyjum, með fána og fleira. „Norður-Evrópa, þetta gerist ekki mikið betra. Enda sérðu að þetta lið mætir í fána og treyjum og syngur allan leikinn,“ sagði Birkir.

Skemmtileg og óvænt uppákoma á Hlíðarenda í gær
Aðsend mynd

Birkir segir að hann hafi farið með Arnóri út á leik Hammarby síðasta haust. Þar var tekið vel á móti þeim.

„Ég og Arnar fórum út í október á Hammarby-AIK. Það var alveg til að rífa upp egóið. Svo við vitum alveg hvað við þurfum að gera ef við erum eitthvað litlir í okkur, það er bara að fara út á leik.“

Pétur Marteinsson er þó langstærsta íslenska nafnið sem hefur leikið með Hammarby, segir Birkir. „Hann er fyrir ofan okkur. Það er alltaf spurt hvort maður þekki Pétur. Hann er alvöru goðsögn þarna.“

Leiknum í gær lauk með 2-0 sigri Val.