Eric Cantona, fyrrum leikmaður Manchester United og goðsögn í knattspyrnuheiminum ætlar sér ekki að horfa á Heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fer fram í Katar síðar á árinu.

Cantona ætlar sér ekki að horfa á heimsmeistaramótið í Katar, hann ætlar að sniðganga mótið sem hann segir að sé haldið í Katar eingöngu peninganna vegna. Lítið sé verið að taka tillit til slæmrar stöðu mannréttinda í landinu.

„Það hvernig komið er fram við fólkið sem byggir meðal annars leikvangana sem spilað er á mótinu er hræðilegt," segir Cantona í viðtali við The Athletic. „Þúsundir hafa látið lífið en þrátt fyrir það ætlum við að fagna þessu heimsmeistaramóti."

Eric Cantona
Fréttablaðið/GettyImages

Ég mun ekki horfa á það. Ég skil vel að það er markaðsleg hlið á knattspyrnunni en ég hélt einnig að knattspyrnuheimurinn væri staður þar sem allir hefðu tækifæri."

Hann segir hins vegar ekki réttlátt að ætlast til þess af núverandi leikmönnum að þeir sniðgangi mótið. Þeir fái aðeins örfá tækifæri til þess að spila á heimsmeistaramóti. Gagnrýnin ættir frekar að snúa að knattspyrnusamböndunum sem horfa fram hjá vandanum, stjórnmálamönnunum sem og þjóðarhöfðingjum. Valdið liggi hjá þeim.

David Beckham, fyrrum liðsfélagi Cantona hjá Manchester United er einn af sendiherrum Heimsmeistaramótsins í Katar og fær greiddar stórar fjárhæðir fyrir það starf. Cantona segist sjálfur ekki geta hugsað sér að gegna svoleiðis stöðu.

„Ég myndi alls ekki taka svona að mér. Ég myndi gera öfugt við það," hann var hins vegar ekki tilbúinn til að fordæma alla þá fyrrum atvinnu knattspyrnumenn sem taka svoleiðis hlutverk að sér. Þeir átti sig kannski ekki á stöðunni í Katar.

„Ef þeir hins vegar vita hvað er að eiga sér stað þá eru þeir ekki að gera rétta hlutinn í stöðunni. Þá eru þeir að gera stór mistök. Stór, stór mistök."