For­ráða­menn Red Bull Ra­cing hafa tekið á sig sökina í neyðar­legu at­viki hjá liðinu um síðustu keppnis­helgi þar sem öku­menn liðsins, Max Ver­stappen og Sergio Perez urðu pirraðir út í hvor annan. Liðið nýtir tæki­færið um leið og for­dæmir hótanir og að­kast sem liðs-, öku­menn og fjöl­skyldu­með­limir öku­manna hafa fengið eftir keppnis­helgina í Brasilíu.

Það mátti heyra spennuna og reiðina hjá báðum öku­­mönnum Red Bull Ra­cing, þeim Sergio Perez og Max Ver­stappen, í sam­­skipta­­kerfi liðsins eftir að þeir óku bílum sínum yfir enda­­marks­­línuna á Interla­gos brautinni í gær.

At­burða­­rásin sem hafði verið sett af stað hjá liðinu, þegar bróður­hluti keppninnar var að baki, á sinn þátt í því en Ver­stappen neitaði að fylgja liðs­skipunum og gefa eftir sæti sitt til Perez sem á í harðri bar­áttu við Charles Leclerc, öku­mann Ferrari í stiga­keppni öku­manna.

Nú hefur Red Bull Ra­cing birt yfir­lýsingu þar sem liðið tekur á sig sökina fyrir at­burða­rásinni í Brasilíu, þar hafi mis­tök átt sér stað. Max hafi fengið skila­boðin um að gefa sæti sitt eftir til Perez í loka­beygju keppninnar án þess að nauð­syn­legar hafi fylgt með.

„Þetta setti Max, sem hefur á­vallt verið heiðar­legur og sann­gjarn liðs­maður, í erfiða stöðu með lítinn tíma til þess að bregðast við. Þetta var ekki ætlun okkar," segir í yfir­lýsingu Red Bull Ra­cing.

Eftir keppnina í Brasilíu hafi Ver­stappen gert hreint fyrir sínum dyrum sem varð til þess að hægt var að leysa úr málunum án nokkurra vand­kvæða.

Líflátshótanir borist

Í sömu yfir­lýsingu gagn­rýnir Red Bull Ra­cing að­kast og hótanir sem liðs­menn, öku­menn og fjöl­skyldu­með­limir þeirra hafa orðið fyrir í kjöl­far at­burða­rásarinnar í Brasilíu. Þar hafi meðal annars líf­láts­hótanir borist.

„Þessi öfga­fulla hegðun, sem sést hefur á sam­fé­lags­miðlum, gagn­vart Max, Perez, liðinu og fjöl­skyldum þeirra er sjokkerandi og sorg­leg. Því miður er þetta eitt­hvað sem við í­þrótt þurfu að eiga sam­tal um því þetta á sér stað reglu­lega.

Það er ekkert pláss fyrir slíka hegðun í mótor­sporti eða sam­fé­laginu í heild sinni, við þurfum og verðum að gera betur.“