Dómstólar í Rússlandi hafa dæmt bandarísku körfuboltastjörnuna Brittney Griner í níu ára fangelsi fyrir að hafa ,,vísvitandi komið með kannabisvökva í rafsígarettu til Rússlands þrátt fyrir að þau væru ólögleg," þetta segir í úrskurði dómstóla sem var kunngerður í dag.

Griner hefur verið í haldi í Rússlandi síðan í febrúar eftir að kannabisvökvi fyrir rafsígarettur fannst í farangri hennar við komuna til landsins.

Hún játaði sök í málinu undir lok síðasta mánaðar en fréttastofa Reuters segir frá því að dómurinn geti greitt leið fyrir fangaskipti milli Bandaríkjanna og Rússlands.

Rússar hafa áður boðið bandarískum stjórnvöldum að skiptast á föngum ef Bandaríkin eru tilbúin að sleppa vopnasalanum Viktor Bout úr haldi sem var á sínum tíma dæmdur í 25 ára fangelsi.

Griner hefur undanfarin ár leikið í Rússlandi á milli tímabila í bandarísku WNBA-deildinni.