Grindavík sendi frá sér tilkynningu nú áðan þar sem kom fram að félagið lýsti yfir vonbrigðum sínum vegna ákvörðunnar Dags Kár Jónssonar og vinnubrögðum Garðbæinga en Dagur Kár gekk í dag til liðs við Stjörnuna.

Dagur sem er uppalinn í Garðarbæ skrifaði undir tveggja ára samning í hádeginu en hann hefur leikið með Grindavík undanfarin tvö ár eftir stutt stopp í St. Francis háskólanum í Bandaríkjunum.

Var hann með 16,6 stig, 3,5 frákast og 6,7 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur er Grindavík féll úr leik í 8-liða úrslitunum en fyrir ári síðan komust Grindvíkingar alla leið í oddaleikinn í úrslitunum.

Kemur fram á síðu Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur að Dagur hafi nýtt sér uppsagnarákvæði í samningi sínum og að félagið skilji hann að snúa aftur á heimaslóðir. Hinsvegar sé Dagur enn samningsbundinn Grindavík og geti ekki sagt upp fyrr en 1. maí næstkomandi.

Hafi félagið gert ráð fyrir honum á næsta tímabili en að þetta setji áform deildarinnar í uppnám en tilkynningu Grindvíkinga má sjá hér fyrir neðan.