Grindavík varði heimavöllinn og vann 84-82 sigur á Stjörnunni í kvöld þar sem flautukarfa frá Ólafi Ólafssyni skildi liðin að en í sama tíma vann Njarðvík öruggan sigur á ÍR í Breiðholtinu.

Það er því allt jafnt í einvígi Stjörnunnar og Grindavíkur en Njarðvík þarf einn sigur í viðbót til að komast áfram.

Grindvíkingar voru nálægt því að stela fyrsta leiknum í Garðabænum þrátt fyrir að hafa lent tuttugu stigum undir í byrjun leiks en í kvöld voru þeir með frumkvæðið framan af og leiddu lengst af í kvöld.

Stjarnan átti áhlaup í lokaleikhlutanum og jafnaði metin þegar tólf sekúndur voru til leiksloka en Ólafur setti sigurkörfuna þegar lokaflautið gall.

Í Breiðholtinu léku heimamenn án Kevin Capers sem tók út leikbann í dag og var ÍR skrefinu á eftir allan leikinn í fimmtán stiga sigri Njarðvíkinga.

ÍR var að eltast við Njarðvík frá fyrsta leikhluta og náði Njarðvík þegar mest var tuttugu stiga forskoti í sigri þar sem ÍR fékk aðeins sex stig af bekknum.