Karlalið Grindavíkur í körfubolta hefur fengið til liðs við sig reynslumikinn og hávaxinn leikmann að nafni Valdas Vasylius. Um er að ræða 203 sentímetra háan miðherja sem lék síðast með Nevez­is í heimalandi sínu.

Þá hefur hann leikið með Sam­ara í Rússlandi og Dnipro í Úkraínu auk þess að spila með fjölda liða í Litháen. Vasylius tók þátt í nýliðavali NBA sumarið 2007 en var ekki valinn.

Hann lék síðan með litháíska liðinu Neptunas í Evrópudeildinni leiktíðina 2014 til 2015. Vasylius var laus undan samningi og Grindvíkingar ákváðu að semja við hann.

Grindavík hefur beðið ósigur í fyrstu tveimur leikjum sínum í Domino's-deildinni gegn KR annars vegar og nágrönnum sínum, Keflavík, hins vegar.

Grindvíkingum hefur tilfinnanlega skort hæð og eiga Vasylius og Bandaríkjamaðurinn Jamal Ola­sew­ere sem er rúmlega tveir metrar á hæð að gera bragarbót á því. Jamal er að jafna sig á meiðslum sem hafa haldið honum utan vallar í fyrstu tveimur leikjum deildarinnar.

Næsti leikur Grindavíkur í deildinni er á móti Haukum í Ólafssal að Ásvöllum en sá leikur fer fram á fimmtudagskvöldið kemur.