Egill Helgason, umsjónarmaður Silfursins og Kiljunnar á RÚV segir að Valur sé í skjóli auðs sé að kaupa íþróttamenn í stórum stíl, honum finnist það ekki smart. Valur varð Íslandsmeistari karla í körfubolta í fyrsta skipti í 39 ár í gærkvöldi þegar að liðið bar sigur úr bítum í oddaleik gegn Tindastól, 73-60.

Valsarar hafa oft á tíðum þurft að sitja undir gagnrýni er snýr að fjárfestingu á leikmönnum og sú umræða spratt aftur upp í gær eftir að félagið varð Íslandsmeistari.

,,Mér finnst það ekki smart hvernig Valur í skjóli auðs er að kaupa íþróttamenn í stórum stíl," skrifar Egill Helgason undir færslu hjá Páli Sævari Guðjónssyni á Facebook. ,,Og ekki bara af því ég er fúll KR-ingur, í félagi sem ekki getur spilað þennan leik, heldur er þetta vont fyrir íþróttahreyfinguna."

Grímur Atlason, meðstjórnandi í stjórn körfuknattleiksdeildar Vals svarar Agli og spyr hvaða rugl þetta sé í honum. ,,Veistu eitthvað um rekstur körfuboltaliða í dag? Veistu hvað ég og fjöldi annarra sjálfboðaliða leggjum á okkur til þess að reka deildina í Val? Þannig er þetta í öllum liðum. Gríðarlega dýr rekstur flestra liða í efstu deild - Njarðvík, Stjarnan, Tindastólll, Keflavík, ÍR, Grindavík, Þór Þorlákshöfn og já KR: þessi lið eru öll með 3-6 100% atvinnumenn. Óþolandi þessi mantra um að Valur sé öðruvísi en hin liðin í þessu efnum. Vissi ekki að þú værir maður falsfréttanna."

Grímur Atlason, meðstjórnandi í stjórn körfuknattleiksdeildar Vals
Mynd/Ernir Eyjólfsson

Undanfarin ár hefur Valsliðið verið byggt upp og hefur þar vakið mesta athygli félagsskipti Jóns Arnórs Stefánssonar, sem lagði skóna á hilluna fyrir tímabilið, Pavel Ermolinski og Kristófer Acox sem komu allir til Vals frá erkifjendunum í KR. Þá var Finnur Freyr Stefánsson fenginn til að þjálfa liðið en hann gerði KR að Íslandsmeisturum fimm ár í röð á sínum tíma.

Þá höfðu Valsmenn einnig samið við landsliðsmennina Kára Jónsson og Hjálmar Stefánsson.