Fram kom í frétt á heimasíðu spænska knattspyrnufélagsins Atlético Madrid í gær að franski landsliðsmaðurinn Antoine Griezmann væri á leið frá félaginu.

Griezmann kom til Atlético Madrid frá Real Sociedad árið 2014 en hann lék 179 leiki með liðinu í öllum keppnum og skorðai í þeim leikjum 94 mörk.

Spænskir fjölmiðlar greina frá því að Barcelona sé líklegasti næsti áfangastaður á ferli franska landsliðsmannsins og kaupverðið á honum verði um og yfir 100 milljónir evra.

Þá hefur hann einnig verið orðaður við að fara til heimalands síns og ganga til liðs við PSG þar í landi. Griezmann hefur leikið 69 leiki fyrir franska landsliðið og skorað í þeim leikjum 28 mörk.