Gríðar­legur tap­rekstur var á knatt­spyrnu­deild Vals á síðasta ári en tapið var í heild rúmar 74 milljónir á síðasta ári. Er þetta ansi mikil breyting á milli ára en rúm­lega 51 milljónar króna hagnaður varð á rekstri Vals árið 2021.

Í tekjum Vals munar mestu um mikið fall í liðnum aðrar rekstrar­tekjur. Árið 2021 var sá tekjuliður að gefa Val tæpar 200 milljónir króna í vasann en árið 2022 var sá tekjuliður að­eins rétt rúmar 70 milljónir króna. Ekki er út­skýrt nánar hvað fellur undir aðrar rekstrar­tekjur en miðað við skoðun blaða­manns á árs­reikningum Vals á milli ára er stór hluti af því tekjur af þátt­töku í Evrópu­keppnum, karla­lið Vals í meistara­flokki var ekki í Evrópu­keppni á síðasta ári.

Rekstrar­tekjur knatt­spyrnu­deildar Vals voru 318 milljónir króna á síðasta ári saman­borið við 374 milljónir árið á undan.

77 prósent í launa­kostnað

Launa­kostnaður knatt­spyrnu­deildar Vals hækkar gríðar­lega mikið á milli ára ef litið er til þess að tekjur deildarinnar drógust saman á milli ára. Rekstrar­gjöld deildarinnar á síðasta ári voru 394 milljónir, launa­kostnaður var 306 milljónir eða 77 prósent af öllum út­gjöldum deildarinnar.

Ef launa­kostnaður er borinn saman við tekjur deildarinnar var kostnaður 96 prósent af tekjum deildarinnar. Launa­kostnaður knatt­spyrnu­deildar Vals hækkar um rúmar 50 milljónir króna á milli ára.

Valur hagnaðist af sölu leik­manna um 8 milljónir króna á síðasta ári en árið á undan var hagnaður af sölu rúmar 20 milljónir. Valur er þó vel stætt fé­lag og á knatt­spyrnu­deild fé­lagsins tæpar 80 milljónir króna í eigið fé en skuldirnar eru rétt rúmar 16 milljónir.