Gríðarlegur taprekstur var á knattspyrnudeild Vals á síðasta ári en tapið var í heild rúmar 74 milljónir á síðasta ári. Er þetta ansi mikil breyting á milli ára en rúmlega 51 milljónar króna hagnaður varð á rekstri Vals árið 2021.
Í tekjum Vals munar mestu um mikið fall í liðnum aðrar rekstrartekjur. Árið 2021 var sá tekjuliður að gefa Val tæpar 200 milljónir króna í vasann en árið 2022 var sá tekjuliður aðeins rétt rúmar 70 milljónir króna. Ekki er útskýrt nánar hvað fellur undir aðrar rekstrartekjur en miðað við skoðun blaðamanns á ársreikningum Vals á milli ára er stór hluti af því tekjur af þátttöku í Evrópukeppnum, karlalið Vals í meistaraflokki var ekki í Evrópukeppni á síðasta ári.
Rekstrartekjur knattspyrnudeildar Vals voru 318 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 374 milljónir árið á undan.
77 prósent í launakostnað
Launakostnaður knattspyrnudeildar Vals hækkar gríðarlega mikið á milli ára ef litið er til þess að tekjur deildarinnar drógust saman á milli ára. Rekstrargjöld deildarinnar á síðasta ári voru 394 milljónir, launakostnaður var 306 milljónir eða 77 prósent af öllum útgjöldum deildarinnar.
Ef launakostnaður er borinn saman við tekjur deildarinnar var kostnaður 96 prósent af tekjum deildarinnar. Launakostnaður knattspyrnudeildar Vals hækkar um rúmar 50 milljónir króna á milli ára.
Valur hagnaðist af sölu leikmanna um 8 milljónir króna á síðasta ári en árið á undan var hagnaður af sölu rúmar 20 milljónir. Valur er þó vel stætt félag og á knattspyrnudeild félagsins tæpar 80 milljónir króna í eigið fé en skuldirnar eru rétt rúmar 16 milljónir.