Sheffield United og Manchester United gerðu 3-3 jafntelfi þegar liðin mættust í 13. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Bramall Lane í dag.

Heimamenn komust í 2-0 í leiknum en Manchester United snéri þeirri stöðu í 3-2 sér í vil og Sheffield United tryggði sér svo stig með marki í uppbótartíma leiksins.

Sheffield United komst yfir eftir tæplega 20 mínútna leik. Lys Mousset hafði þá betur í baráttunni við Phil Jones sem hóf leikinn í miðri vörn Manchester United. Mousset lagði boltann út á John Lundstram en David de Gea varði skot hans. Boltinn hrökk til John Fleck sem skilaði boltanum í netið.

Mousset var svo aftur á ferðinni í upphafi seinni hálfleiks en hann batt þá endahnútinn á snarpa og vel útfærða skyndisókn Sheffield United. Fleck vann boltann af Andreas Pereira inni á miðsvæðinu og bolintn endaði hjá Mousset sem tvöfaldaði forystu heimaliðsins með hnitmiðuðu skoti.

Ungu leikmennirnir létu til sín taka hjá Manchester United

Það var ekkert sem benti til þess að Manchester United myndi fá eitthvað út úr þessum leik þegar 70 mínútur voru liðnar af leiknum. Lærisveinar Ole Gunnar Solskjær tóku þá við sér og það voru ungu leikmennirnir í liðinu sem voru í aðalhlutverki í endurkomu liðsins.

Brandon Williams kastaði líflínu fyrir Manchester United með marki sínu þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Williams sem lék sem vængbakvörður í leiknum fékk boltann á vítateigshorninu eftir fyrirgjöf frá Daniel James og skoraði með föstu skoti.

Mason Greenwood sem kom inná sem varamaður á 73. mínútu leiksins var svo búinn að jafna metin fjórum mínútum síðar. Greenwood skilaði þá hárnákvæmri sendingu Marcusar Rashford í netið. Rashford kom svo Manchester United yfir tveimur mínútum seinna og héldu þá flestir að gestirnir færu með stigin þrjú heim.

Leikmenn Sheffield United lögðu aftur á móti ekki árar í bát en varamaðurinn Oliver McBurnie skoraði jöfnuarmark í uppbótartíma leiksins og þar við sat. Sheffield United er í sjötta sæti deildarinnar með 18 stig eftir þessi úrslit en Manchester United er í því níunda með 17 stig.