Til stóð að Ólympíuleikar myndu hefjast í Tókíó í dag en þeim var frestað um ár vegna kórónaveirufaraldursins. Mikill kostnaður mun koma til vegna frestunar leikanna en samkvæmt rannsókn Háskólans í Kansai í Japan mun sá kostnaður hljóða upp á um það bil 817 milljarða íslenskra króna.

Fram kemur í tilkynningu alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) að aðstæður og umgjörð við leikana verði á næsta ári á sama hátt og lagt var upp með í ár. Það er að keppt verði á sömu 43 leikvöngum og upphaflega var áætlað og dagskráin eins.

Thomas Bach, forseti IOC, segir að mikil vinna sé fram undan við að endurskipuleggja leikana og skipuleggja viðburði þar sem íþróttamenn geta tryggt sér farseðil á leikana að ári.

Einn íslenskur íþróttamaður hefur tryggt sitt sæti inn á Ólympíuleikana í Tókíó en það er sundmaðurinn Anton Sveinn McKee. Fjölmargir íslenskir íþróttamenn munu næstu mánuðina freista þess að slást í hópinn með Antoni Sveini.

„Undanfarnir mánuðir hafa verið sérstakir hvað varðar undirbúning fyrir Ólympíuleika. Við að fresta leikunum um eitt ár breytist margt í umhverfi íþróttafólksins og þurfa allir að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Það má samt hafa í huga að þótt síðustu vikur og mánuðir hafi verið erfið fyrir íþróttaiðkun þá felast einnig tækifæri í þeim áskorunum.

Ég er viss um að við komum öll sterkari út úr þessu ástandi og afreksíþróttafólkið mun sýna hvað í því býr og fleiri aðilar munu vinna sér þátttökurétt á leikana. Það verður þannig spennandi að sjá hvernig íslenskt afreksíþróttafólk mun standa sig í samanburði við erlenda keppinauta á næstu misserum, en ég er viss um að það mun ná góðum árangri, enda er það einkenni Íslendinga að koma sterkir til leiks þrátt fyrir erfiðleika.

Hvað varðar undirbúning ÍSÍ fyrir þessa leika þá er hann á áætlun og hefur ekki orðið fyrir miklum breytingum þótt að leikunum hafi verið seinkað um eitt ár,“ segir Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ, sem verður aðalfararstjóri á Ólympíuleikunum í Tókíó.