Leon Edwards varð um helgina að­eins annar Bretinn í sögu UFC til þess að verða meistari. Edwards lagði af velli ríkjandi meistara Kamaru Us­man í titil­bar­daga velti­vigtar­deildarinnar. Edwards var með bakið upp við vegg fyrir síðustu lotu bar­dagans en hann steig upp og náði rot­höggi þegar að­eins rúm ein mínúta var eftir af síðustu lotunni.

Þetta var í annað skipti sem kapparnir mættust í bar­daga­búrinu Us­man vann fyrri bar­daga þeirra með nokkrum yfir­burðum en án þess þó að ná að klára Edwards með rot­höggi eða hengingu. Fyrir bar­dagann hafði Us­man unnið 19 bar­daga í röð og varið titil sinn í velti­vigtar­deildinni fimm sinnum. Edwards hefur að sama skapi ekki tapað bar­daga síðan að hann tapaði gegn Us­man í fyrri bar­daga þeirra árið 2015.

Höggið sem gerði út um bardagann
Fréttablaðið/GettyImages

Um risa­stóra stund var að ræða fyrir Edwards sem og Bret­land en þetta er að­eins í annað skipti sem bar­daga­maður frá landinu verður meistari í UFC. Fyrir hafði þá nafn­bót að­eins gilt um Michael Bisping.

Edwards hefur áður lýst því hvernig hann hefur unnið sig upp úr engu til þess að ná svona langt. Það var móðir hans sem kom honum inn í MMA þegar Edwards var 17 ára gamall og síðan þá hefur leiðin legið upp á við. Edwards náði sam­bandi við móður sína í gegnum mynd­sím­tal eftir að titillinn var í höfn og auð­sjáan­legt hversu miklu máli þessi stund skipti hann.

Góður vinskapur milli hans og Gunnars

Gunnar og Edwards mættust í O2-höllinni í mars árið 2019 í bar­daga sem Edwards vann á klofinni dómara­á­kvörðun og er það í eina skiptið á UFC ferli hans sem hann hefur unnið bar­daga á klofinni á­kvörðun. Síðan þá hefur frægðar­sól Edwards risið hærra.

Í að­draganda síðasta bar­daga Gunnars í UFC gegn Takashi Sato í Lundúnum fyrr á þessu ári mátti sjá að vel fór á milli Gunnars og Leon Edwards sem var ansi sýni­legur dagana fyrir bar­daga­kvöldið. Frétta­ritari var á svæðinu í Lundúnum og sá hversu vel fór á milli þessara fyrrum keppi­nauta sem berjast í sömu deild og höfðu háð harða bar­áttu inn í búrinu.

Gunnar í búrinu með Edwards á sínum tíma
Fréttablaðið/GettyImages

Þegar ég hitti þá feðga á hóteli í Lundúnum í að­draganda bar­daga­kvöldsins mátti sjá Gunnar sitja í sófa á hótelinu með teymi sínu og við hlið hans var Leon Edwards, sem Gunnar. Ég rifjaði upp þetta at­vik við

Harald Dean Nel­son, um­boðs­mann og föður Gunnars degi fyrir bar­daga­kvöldið vegna þess að til­finningin við að horfa á bar­daga í UFC er oftar en ekki sú að maður heldur að eftir bar­daga skilji and­stæðingarnir ó­sáttir, búnir að lemja hvor á öðrum.

,,Okkar stefna hefur alltaf verið sú að við berum virðingu fyrir and­stæðingnum og við vissum það þegar Gunnar mætti Edwards að hann væri ekki að fara á móti ó­vini sínum heldur keppi­naut," svaraði Haraldur mér þá og svo virðist sem virðingin hafi verið gagn­kvæm.