Kanadíski snjóbrettakappinn Max Parrot, vann í dag ólympíugull á vetrarólympíuleikunum sem fara fram í Peking þessa dagana. Aðeins þrjú ár eru liðin síðan að Max greindist með krabbamein.

Max var greindur með krabbamein í desember 2018, þá aðeins 24 ára að aldri. Lyfjameðferð við meininu gekk vel og aðeins sex mánuðum eftir greiningum fékk Max þær fréttir að hann væri laus við meinið.

Í snjóbrettakeppni vetrarólympíuleikanna í gær var það Max sem kom sá og sigraði og vann til gullverðlauna.

,,Tilfinningin er ótrúleg. Svo mikið hefur átt sér stað undanfarin fjögur ár. Ég vann til silfurverðlauna síðast þegar að ég var á vetrarólympíuleikunum en greindist síðan með krabbamein. Það var martröð að ganga í gegnum," sagði Max í viðtali við BBC.

Hann segir það hafa verið mjög erfitt að vinna sig aftur á þann stað sem hann er á núna eftir veikindin.

,,Maður hefur ekkert þol, enga orku og enga vöðva. Það að vera kominn aftur hingað á ólympíuleika og á verðlaunapall með gullverðlaun er ótrúlefgt," sagði Max Parrot, gullverðlaunahafi á vetrarólympíuleikunum.