FIA, regnhlífarsamtök Formúlu 1 munu ekki kynna niðurstöður sínar á því sem gekk á í kringum Abu Dhabi kappaksturinn í síðasta kappakstri síðasta tímabils fyrr en þann 18 mars næstkomandi, tveimur dögum áður en fyrsta keppni ársins fer fram.

Mikil óvissa ríkir um framtíð Sir Lewis Hamilton, ökumanns Mercedes, í íþróttinni en hann ku vera mjög ósáttur við stjórn Formúlu 1. Hann hafði ætlað sér að bíða þangað til að niðurstöður rannsóknarinnar yrðu kynntar til þess að gera upp hug sinn en nú er ljóst að það gæti reynst erfitt.

Hamilton skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Mercedes á síðasta ári, samningur sem gildir út tímabilið 2023.

Hvað gerðist?

Mercedes sendi frá sér yfirlýsingu eftir kappaksturinn í Abu Dhabi. Þar sagði liðið að það hefði í hyggju að áfrýja niðurstöðu ráðsmanna Formúlu 1 eftir kappaksturinn í Abu Dhabi.

Forráðamenn Mercedes höfðu átt fund með ráðsmönnum Formúlu 1 þar sem að þeir mótmæltu ákvörðun ráðsmanna og að þeim hafi fundist tvær reglugerðir hafa verið brotnar í ákvörðun keppnisstjóra Formúlunnar um að leyfa hringuðum bílum að afhringa sig undir lok keppninnar á bak við öryggisbíl.

Hringuðum bílum fyrir aftan öryggisbílinn hafði verið skipað að halda sig fyrir aftan öryggisbílinn þar sem að þeir voru staðsettir á milli Hamilton sem var í fyrsta sæti og Verstappen sem var í öðru sæti.

Keppnisstjórnendur ákváðu hins vegar að breyta ákvörðun sinni og leyfðu þeim bílum sem voru hring á eftir forystusauðunum að afhringa sig. Frá þeirri stundu varð ljóst að Hamilton ætti erfitt uppdráttar þar sem að Verstappen var á mun betri dekkjagangi. Svo fór að hann tók framúr Hamilton og tryggði sér sigur í stigakeppni ökumanna. Mótmæli Mercedes voru ekki tekin gild.