Manchester United og Everton skildu jöfn, 1-1, þegar liðin áttust við í 17. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Old Trafford í dag.

Everton komst yfir í fyrri hálfleik þegar Victor Lindelöf, varnarmaður Manchester United, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Það var svo hinn 18 ára gamli framherji Mason Greenwood sem sá til þess að Manchester United nældi í stig þegar hann jafnaði metin um það bil stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Greenwood sem var tiltörulega nýkominn inná sem varamaður þegar hann skoraði var þarna að skora sitt annað mark i deildinni á yfirstandandi leiktið.

Gylfi Þór ekki með vegna veikinda

Duncan Ferguson hefur náð í fjögur stig í þeim tveimur leikjum sem hann hefur stýrt Everton en hann hefur sagt að hann hafi ekki áhuga á að taka við liðinu til frambúðar og leit stendur fyrir að framtíðar knattspyrnustjóra.

Spurning er hins vegar hvort annað hljóð komi í strokkinn hjá Ferguson og forráðamönnum Everton ef spilamennska og stigasöfnun liðsins heldur áfram að vera jafn góð og í fyrstu leikjum hans við stjórnvölinn.

Gylfi Þór Sigurðsson var ekki í leikmannahópi Everton í leiknum en enskir fjölmiðlar segja að hann hafi yfirgefið hótel liðsins í morgunsárið vegna veikinda.

Gott gengi José Mourinho heldur áfram

Tottenham Hotspur fór svo með 2-1 sigur af hólmi þegar liðið sótti Wolves heim á Molineaux. Þar skoruðu Lucas Moura og Jan Vertonghen mörk Tottenham Hotspur en Adama Traord mark heimamanna.

Eftir þessi úrslit er Tottenham Hotspur í fimmta sæti deildarinnar með 26 stig og Manchester United sæti neðar með einu stigi minna. Wolves er svo í áttunda sætinu með 24 stig.

Everton er enn í seilingarfjarlægð frá fallsvæði deildarnnar en liðið hefur 18 stig í 16. sæti deildairnnar og er þremur stigum frá fallsæti.