Mason Greenwood, leikmaður Manchester United, hefur verið hreinsaður af öllum ásökunum. Hann hefur ekki spilað fótbolta í meira en ár í kjölfar þess að hann var ákærður fyrir tilraun til nauðgunar, stjórnandi hegðun og líkamsárás, allt gegn fyrrverandi kærustu sinni Harriet Robson.

Þetta kemur fram í staðarmiðlinum Manchester Evening News.

Lögregla á Manchester-svæðinu staðfestir að málin gegn honum hafi verið látin niður falla. 

„Þar sem þetta mál er mikið í fjölmiðlum teljum við sanngjarnt að deila því með ykkur að 21 árs gamli maðurinn sem tengist rannsókn sem hófst í janúar 2022 verður ekki frekar sóttur til saka vegna málsins,“ segir yfirlögregluþjónninn Michaela Kerr.

Greenwood hefur verið á mála hjá United síðan hann var sex ára en ekki er ljóst hver næstu skref verða hjá vinnuveitendum hans að svo stöddu.