Jack Grealish, fyrirliði karlaliðs Aston Villa í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan fimm ára samning við félagið. Þessi 24 ára gamli sóknartengiliður hefur verið orðaður við stærri félög síðustu mánuðina en hann hefur nú sýnt tryggð sína við uppeldisfélagið.

Manchester United og Arsenal voru helst nefnd til sögunnar sem mögulegir næstu áfangastaðir á ferli Grealish sem virðist ætla að spila með Aston Villa næstu árin.

Grealish skoraði átta mörk þegar Aston Villa hélt sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni á síðasta keppnistímabili auk þess að leggja upp sex mörk fyrir samherja sína. Sú frammistaða skilaði honum sæti í enska landsliðinu og spilaði hann sinn fyrsta landsleik þegar enska liðið gerði markalaust jafntefli við Danmörku í leik liðanna í Þjóðadeildinni á dögunum.

Aston Villa keypti fyrr í þessari viku sóknarmanninn Ollie Watkins frá Brentford en þær 33 milljónir punda sem félagið reiddi fram fyrir hann er metfé í sögu félagsins. Þá eru markvörðurinn Emiliano Martinez sem er á mála hjá Arsenal og framherjinn Bertrand Traore sem leikið hefur fyrir Lyon undanfarin ár á leið til Aston Villa áður en lokað verður fyrir félagaskipti í byrjun október næstkomandi.

Aston Villa leikur sinn fyrsta leik á yfirstandandi keppnistímabili þegar liðið mætir Burton Albion í enska deildarbikarnum í kvöld. Þá leikur liðið við Sheffield United í fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni á mánudaginn kemur.