Íslenska karlalandsliðið í körfubolta er enn með örlögin í eigin höndum en þarf að fara fjallabaksleiðina í lokakeppni HM eftir 85-89 tap gegn Georgíu í Laugardalshöll í kvöld.

Með því er ljóst að íslenska liðið þarf að vinna að minnsta kosti tvo af síðustu þremur leikjum liðsins gegn Úkraínu, Georgíu úti og Spánverjum heima.

Um leið verða Strákarnir okkar helst að vinna fjögura stiga sigur á Georgíu til að eiga innbyrðis viðureignina ef liðin enda jöfn.

Ísland er jafnt Georgíu með tíu stig í 3-4. sæti riðilsins en þrjú efstu lið riðilsins komast á HM á næsta ári.

Íslenska liðið var lengi af stað í kvöld og lenti undir strax á upphafsmínútum leiksins. Georgíumenn með Thad McFadden fremstan í flokki voru að finna lausnir á varnarleik Íslands.

Munurinn fór um tíma upp í tíu stig í upphafi annars leikhluta en Íslendingar svöruðu um hæl og héldu sér inn i leiknum með rispum þótt að Georgíumenn væru með frumkvæðið.

Gestirnir leiddu með sjö stigum þegar gengið var inn til búningsklefa en Strákarnir okkar mættu beittir til leiks í seinni hálfleik.

Jón Axel sækir að körfu georgíska liðsins í kvöld.
Fréttablaðið/valli

Frábær spilamennska á báðum enda vallarins skilaði 22-8 áhlaupi íslenska liðsins sem náði sjö stiga forskoti um tíma og tók þriggja stiga forskot inn í lokaleikhlutann.

Það var því gríðarlega spenna í fjórða leikhluta. Ísland bætti við forskot sitt en missti forskotið úr höndum sér og komust gestirnir á lagið.

Liðin skiptust á körfum en Ísland var svo sannarlega rænt tækifæri til að jafna metin á lokasekúndum leiksins þegar dómaraþríeykið dæmdi afar sérkennilega villu á Georgíumanna.

Dómari leiksins dæmdi sendingavillu þegar Sigtryggur Arnar var í skottilraun fyrir aftan þriggja stiga línuna. Með því fékk Ísland tvö vítaskot en ekki þrjú, þremur stigum undir.

Arnar þurfti því að brenna af seinna vítaskotinu í von um að Íslendingar næðu frákastinu en Georgíumenn náðu frákastinu sem réði úrslitum leiksins að lokum.

Elvar Már var stigahæstur með nítján stig í dag og Tryggvi Snær Hlinason var með tvöfalda tvennu með fimmtán stig og tíu fráköst í liði Íslands.