Strákarnir okkar stóðust allar væntingar og gott betur en það þegar þeir fóru illa með Svartfellinga í tíu marka sigri í gær en það dugði ekki til. Þeirra bíður leikur um fimmta sætið sem veitir þátttökurétt á HM en á sama tíma getur íslenska þjóðin verið stolt af framgöngu liðsins og bjartsýn um framtíðina.

Íslenska liðið vissi fyrir leik að það þurfti á sigri að halda til þess að halda möguleikanum á sæti í undan­úrslitum mótsins á lífi. Örlögin voru ekki einungis í þeirra höndum, því þeir þurftu um leið að treysta á hjálparhönd Dana síðar um kvöldið.

Danir voru með pálmann í höndunum en glutruðu niður fimm marka forskoti á lokakafla leiksins sem gerði út um vonir Íslands.

Fyrir leikinn gegn Svartfjallalandi bárust góðar fréttir úr herbúðum Íslands. Þrír leikmenn sem höfðu verið í einangrun undanfarna daga vegna Covid-19, þeir Aron Pálmarsson, Elvar Örn Jónsson og Bjarki Már Elísson, voru allir lausir og gátu spilað með íslenska liðinu í leiknum.

Tónninn var sleginn strax í byrjun með tveimur mörkum frá Aroni Pálmarssyni, þetta reyndust hins vegar hans einu mörk í leiknum, þar sem hann fór meiddur af velli snemma í fyrri hálfleik. Íslendignarnir náðu strax yfirhöndinni í leiknum og hleypti Svartfellingum aldrei inn í leikinn að nýju. Munurinn var lengst af á bilinu sex til átta mörk, þar sem Svartfellingum tókst að halda Strákunum okkar innan seilingar en ógnaði aldrei forskoti Íslands.

Varnarvinna liðsins var frábær, markvarslan öflug og sóknarleikurinn fjölbreyttur og sífellt ógnandi. Leikmennirnir sem komu aftur inn eftir að hafa náð sér af kóróna­veirusmiti komu vel inn í lið Íslands en eini svarti bletturinn er meiðsli Arons, sem Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, sagði fylgifisk þess að Aron hefði verið í einangrun undanfarna daga í samtali við Rúv eftir leik.

Einar Jónsson, þjálfari karlaliðs Fram í Olís-deild karla, tók undir að sama hver lokaniðurstaða mótsins yrði, þá gæti íslenska liðið verið stolt af framgöngu sinni á mótinu, þegar Fréttablaðið leitaði álits hans.

„Ég er sammála því. Riðlakeppnin var, þegar maður lítur til baka, bara nokkuð góð þegar maður vissi ekki alveg hvað myndi gerast, en stígandinn í þessu liði hefur verið ótrúlegur. Frammistaðan í milliriðlinum hefur verið stórkostleg að mínu mati og leikmenn að stíga upp. Það er sama hvaða nafn er tekið til, þeir hafa allir skilað einhverju og verið frábærir“ segir Einar.

„Við höfum lent í áföllum eins og flest önnur lið, en höfum ekkert látið það á okkur fá og höfum spilað betur eftir því sem líður á mótið, finnst mér.“

Einar tekur undir að það séu ný nöfn farin að gera tilkall til stærri hlutverka næstu ár.

„Við búum kannski vel að því að upplegg liðsins hefur verið svipað undanfarin ár og hann hefur þurft að fikra sig áfram og prófa nýja leikmenn. Það hafa allir komið vel inn og virðast allir þekkja sín hlutverk vel. Mér finnst sóknarleikurinn vera fjölbreyttari og við erum að nýta styrkleika Ómars mun betur.“

Einar tekur undir að það sé full ástæða til bjartsýni fyrir næstu ár.

„Mann er bara strax farið að hlakka til næstu móta. Þetta lið er á frábærum aldri og ungt ef eitthvað er, og komið með góða breidd fyrir næstu mót, sem hefur stundum vantað,“ segir Einar og heldur áfram:

„Breiddin í leikmannahópnum fer að nálgast liðið árið 2012 og maður er bjartsýnn fyrir framtíðina.“

Þriðji stærsti sigur Íslands á Evrópumóti

Um tíma virtust Strákarnir okkar vera að hóta því að bæta metið yfir stærsta sigur Íslands frá upphafi í lokakeppni Evrópumótsins í gær, en svo fór að þá vantaði tvö mörk.

Hið tuttugu ára gamla met, ellefu marka sigur á Sviss, sem var jafnað á EM 2020, lifir því áfram og er óvíst hvort að það verði nokkru sinni bætt. Íslenska liðinu tókst að jafna þann árangur á EM 2020 þegar Strákarnir okkar unnu ellefu marka sigur á Rússum.

Íslenska liðið var mun betri aðilinn frá fyrstu sekúndu í gær og komst átta mörkum yfir eftir tuttugu mínútna leik. Miloš Vujović, ein af stjörnum Svartfellinga, náði að halda þeim á floti í leiknum og gerði það að verkum að Ísland náði ekki endanlega að stinga af fyrr en langt var liðið á seinni hálfleikinn.

Munurinn fór mest upp í tíu mörk á lokasekúndunum og vantaði því eitt mark til að jafna metið og tvö mörk til að bæta það.

Sæti á HM undir gegn Noregi

Eftir sigur Frakka á Dönum í gær er ljóst að Ísland leikur við Noreg um fimmta sætið á Evrópumótinu í handbolta. Ísland endaði í þriðja sæti af sex í milliriðlinum, tveimur stigum frá því að komast í undanúrslitin og á möguleika á að keppa um verðlaun. Það þýðir hins vegar ekki að það sé að engu að keppa fyrir íslenska liðið á morgun.

Sigurvegari leiks Íslands og Noregs á morgun tryggir sér um leið þátttökurétt í lokakeppni Heimsmeistaramótsins, sem fer fram í Svíþjóð og Póllandi á næsta ári. Svíar eru eitt liðanna sem leika í undanúrslitunum og stendur því eitt sæti í lokakeppni HM til boða fyrir liðið sem endar í fimmta sæti.

Þetta verður tíunda viðureign Íslands og Noregs á stórmóti, en Norðmenn unnu síðast þriggja marka sigur. Fyrir það var Ísland búið að vinna fimm leiki í röð gegn Noregi á stórmótum.