Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfubolta, er á leið í Njarðvík. Frá þessu var greint í Domino's Körfuboltakvöldi á Stöð 2 Sport.

Samningi Elvars við franska B-deildarliðið Denain Voltaire var sagt upp í vikunni til að búa til pláss fyrir annan leikstjórnanda.

Elvar lék með Njarðvík áður en hann fór í bandaríska háskólaboltann. Þar lék hann eitt tímabil með LIU Brooklyn og þrjú með Barry.

Njarðvík vann öruggan sigur á KR fyrr í kvöld og gott kvöld varð því enn betra fyrir þá grænu þegar tíðindin af heimkomu Elvars bárust.

Síðasta tímabilið sem Elvar lék með Njarðvík var hann með 20,8 stig, 4,3 fráköst og 7,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.