Rúmlega ári eftir að hafa leitt Toronto Raptors til sigurs í úrslitakeppni NBA-deildarinnar, átti Kawhi Leonard í stökustu vandræðum þegar hann og liðsfélagar hans voru sendir í sumarfrí af liði Denver Nuggets, aðfaranótt miðvikudags. Með Leonard og Paul George átti Clippers að vera komið með púslin sem þurfti til að landa loksins meistaratitli, en þeir voru manna verstir þegar Clippers réði ekkert við lið Nuggets á lokasprettinum. Eftir að hafa haltrað í gegnum Dallas Mavericks í fyrstu umferð úrslitakeppninnar var staðan vænleg þegar Clippers komst 3-1 yfir, en drengirnir frá Denver gáfust ekki upp og unnu þrjá leiki í röð til að bjarga tímabili sínu.

Clippers hefur alltaf verið í skugga stóra bróður í Los Angeles, Los Angeles Lakers, síðan félagið flutti búferlum frá San Diego í Borg Englanna árið 1984. Liðið deilir höll með Lakers, þar sem fátækleg afrek Clippers eiga ekki roð í sextán meistaratitla Lakers, þar af átta meistaratitla síðan Clippers flutti til Los Angeles. Fyrir tíu árum náði Clippers loksins að smíða saman stjörnulið líklegt til atlögu og náði að standa í nágrönnunum, en uppskeran var heldur rýr. Tveir Kyrrahafsriðilstitlar voru allur árangurinn sem náðist, áður en liðið var leyst upp og reynt á ný.

Félaginu tókst að landa stærsta bitanum á markaðnum í fyrra, þegar Leonard samþykkti tilboð Clippers gegn því að félagið myndi einnig semja við Paul George. Clippers borgaði fúlgur fjár fyrir George og sendi í hina áttina efnilegan leikmann, Shai Gilgeous-Alexander, ásamt fimm valréttum í fyrstu umferð nýliðavalsins sem er haldið á ári hverju. Með því voru skilaboðin skýr, það átti að vinna titil sem fyrst með tveimur reynslumiklum stjörnum við þrítugsaldur á kostnað næstu ára. Á sama tíma sendu nágrannarnir í Lakers sömu skilaboð með því að semja við Anthony Davis á kostnað framtíðar valrétta í nýliðavalinu.

Það stefndi því allt í blóðuga baráttu milli liða sem deildu keppnishöll, um hvort liðið fengi að vera fulltrúi Vesturdeildarinnar í úrslitum NBA áður en Clippers féll á prófinu, enn einu sinni, undir stjórn Doc Rivers. Í annað sinn á fimm árum var Clippers með pálmann í höndunum og þurfti aðeins að vinna einn leik til viðbótar í undanúrslitum Vesturdeildarinnar en kastaði frá sér miðanum með því að tapa þremur leikjum í röð.