Nú þegar NBA deildin er byrjuð að nýju er gaman fyrir marga að sjá gömlu góðu stórveldin, Boston Celtic og Los Angeles Lakers, sitja í efstu sætunum.

Eftir örfáa leiki eru Lakers á toppi vesturstrandarinnar með 9 sigra og tvö töp en Boston Celtic er í efsta sæti austurstrandarinnar með 9 sigra og eitt tap. Liðin spila í nótt. Lakers gegn Sacramento og Boston fær Golden State í heimsókn sem Lakers unnu í gær.

Liðin eru þau langsigursælustu í sögu NBA með alls 33 titla. Boston með 17 titla en Lakers einum titli minna. Golden State og Chicago Bulls hafa unnið sex titla hvort. Alls hafa Boston og Lakers verið 52 sinnum í úrslitaeinvíginu og mæst 12 sinnum, síðast árið 2010 þegar Lakers unnu 4-3.

Þrátt fyrir dapurt gengi að undanförnu hefur rígurinn á milli liðanna verið mikill, þó hann hafi verið minni síðan að Larry Bird og Magic Johnson hlupu um hallirnar.

Rígurinn byrjaði snemma. Red Auerbach, þjálfari Boston, hafði marga góða leikmenn á sjöunda áratug síðustu aldar. Þar fór fremstur Bill Russell en einnig voru leikmenn eins og Tom Heinsohn, John Havlicek og Sam Jones. Hinumegin voru þeir Elgin Baylor, Jerry West og Gail Goodrich. Celtic tók þann áratug og pakkaði honum saman. Vann alltaf nema 1967 takk fyrir.

Alls mættust liðin í úrslitunum sex sinnum þennan áratug. 1962, 63, 65,66, 68 og 1969. Celtic vann alltaf. Rígurinn var búinn til og hefur haldist síðan. Þó liðin ynnu nokkra titla á áttunda áratugnum mættust liðin ekkert.

Larry Bird og Magic Johnson á góðri stundu.

Níundi áratugurinn var blómaskeið NBA deildarinnar þar sem Magic Johnson og Larry Bird voru aðalstjörnurnar - ekki bara hjá sínum liðum heldur í deildinni. Liðin voru í öllum úrslitaeinvígum áratugarins.

Magic vann fyrsta titilinn árið 1980 en svo var komið að Bird að taka hann ári síðar. Lakers vann 1982 áður en Philadeilphia stal einum titli ári síðar.

1984 var svo komið að stóru stundinni. Lakers gegn Celtic í úrslitum. Og þvílík lið og þvílík sería. Lakers vann einn leik 137-104 þar sem Bird kallaði samherja sína aumingja. Kevin McHale tók niður Kurt Rambis með slíku offorsi að annað eins hefur sjaldan sést síðan. Celtic vann þetta einvígi en liðin mættust aftur ári síðar. Þá vann Lakers í Boston Garden í leik sex. Það tap svíður enn í Boston segja kunnugir.

1986 vann Celtic titilinn gegn Houston Rockets en ári síðar mættust liðin á ný. Lakers vann þá seríu 4-2 þar sem Magic Johnson sýndi tilþrif sem enn er talað um. Sá leikur var rosalegur í alla staði. Lakers vann 107-106 í spennutrylli. Sigurkarfa Magic kom þegar aðeins tvær sekúndur voru eftir af leiknum.

Þar með lauk langri velgengnissögu Boston því liðið komst ekki aftur í úrslitaeinvígið fyrr en árið 2008. Lakers gekk betur og unnu Detroit árið 1988 en töpuðu fyrir sama liði ári síðar. Um það var gerð stórkostleg kvikmynd sem kallast Bad Boys.

Kareem Abdul Jabbar að skora yfir Larry Bird.

Rígurinn og gæði Bird og Magic voru slík að allra augu fóru á NBA deildina. Um allan heim. Í áratug á undan hafði NBA deildin verið að ströggla og lítið áhorf hafði verið. Það breyttist og íþróttafréttamaðurinn Larry Schwartz sagði að Bird og Magic hefðu bjargað deildinni frá gjaldþroti.

Og þá kom kóngurinn Michael Jordan og gerði deildina að þeirri deild sem hún er í dag. Chigaco varð að stórveldi og út fóru þeir gömlu og inn komu ferskari fætur. Rígurinn virtist hverfa enda voru liðin frekar slöpp. Árið 1994 komust þau ekki einu sinni í úrslitakeppnina en það var í fyrsta sinn sem það gerðist.

Lakers fór að byggja upp í kringum Kobe Bryant og tröllið Shaquille O´Neill. Celtic náði í Paul Pierce. Árið 1999 kom svo Phil Jackson til Lakers og gerði liðið að meisturum þrjú ár í röð. Síðan kom hnignunartímabil þar til Boston náði í Kevin Garnett og Ray Allen. Þá fóru hlutirnir að gerast á ný.

Árið 2008 mættust liðin í úrslitunum. Celtic vann það einvígi í sex leikjum. Ári síðar vann Lakers og vonuðust margir eftir að tími stórveldana væri kominn á ný.

Það gerðist ekki. En nú er von. Bæði lið hafa byrjað vel og eru með logandi góðan mannskap. Lakers með Lebron James innan félagsins og Anthony Davis á meðan Celtic hefur Kemba Walker og Gordon Hayward. Hver veit nema að stuðið að hafa Lakers gegn Celtic í úrslitaeinvíginu verði í maí á næsta ári. Þangað til á eftir að spila ansi marga leiki.

Þvílíkir menn. Magic og Larry Bird.